BDS hreyfingin

Í meira en 75 ár hafa ísraelsk stjórnvöld neitað Palestínufólki um grundvallarréttindi, sjálfsákvörðunarrétt og frelsi. Ísrael hefur rekið nýlendustefnu gegn Palestínu sem einkennist af þjóðernishreinsunum, aðskilnaðarstefnu, landnámi og hernámi.

Þrátt fyrir að gjörðir ísraelskra stjórnvalda hafa margsinnis verið fordæmdar af ríkjum, alþjóðastofnunum og mannréttindahreyfingum hafa ísraelsk stjórnvöld komist upp með það í áratugi að brjóta alþjóðalög, fremja stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, án þess að þurfa að sæta ábyrgð. Það er vegna stuðnings alþjóðasamfélagsins, tregðu vestrænna leiðtoga og alþjóðastofnana til þess að draga Ísrael til ábyrgðar og stuðnings stofnana og fyrirtækja um allan heim við kúgun Ísraelsríkis á palestínsku þjóðinni.

Þann 9. júlí 2004 dæmdi Alþjóðlegi glæpadómstólinn byggingu Ísraela á aðskilnaðarmúr á landi Palestínumanna ólöglega. Ári síðar kom sameinað ákall frá mörgum fjöldahreyfingum í Palestínu þar sem skorað var á félaga þeirra og einstaklinga um allan heim að hefja víðtæka sniðgöngu á Ísrael. Yfir 170 palestínskar stjórnmálahreyfingar, samtök, verkalýðsfélög og aðrar hreyfingar voru að baki ákallinu um alþjóðlega sniðgöngu Ísraels. Undirskriftir þessara forsvarsmanna tákna hina breiðu fylkingu Palestínumanna sem standa að ákallinu.

Þessi alþjóðlega hreyfing gengur undir nafninu BDS (boycott, divestment & sanctions) og er leidd af fólkinu í Palestínu. Hreyfingin skorar á þjóðir, fyrirtæki, stofnanir, samtök og einstaklinga um heim allan að sniðganga Ísrael þar til stjórnvöld þar í landi fylgja alþjóðalögum og virða mannréttindi palestínsku þjóðarinnar að fullu.

Milljónir einstaklinga, samtaka og hreyfinga um allan heim styðja hreyfinguna.
Fyrirmynd ákallsins um sniðgöngu á Ísrael eru þær friðsamlegu aðferðir sem beitt var gegn Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Slíkar aðferðir áttu sinn þátt í að stjórnvöld þar í landi létu loks af aðskilnaðarstefnu sinni.

Ákallið felur í sér að sniðganga ísraelska framleiðslu, hvatningu um að hætta fjárfestingum og draga þær til baka auk kröfu um þvinganir og refsiaðgerðir gegn Ísraelsríki, þar til réttindi Palestínufólks verða virt að fullu í samræmi við alþjóðalög.

Ákallið leggur áherslu á að þvinga Ísrael til að fara að alþjóðalögum og:

  • stöðva hernámið og nýlendustefnu á öllu arabísku landi og fjarlægja ólöglega aðskilnaðarmúrinn;
  • viðurkenna grundvallarréttindi þeirra palestínsku borgara sem búa í Ísrael og veita þeim full réttindi á við aðra borgara; og
  • virða, vernda og stuðla að réttindum palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til sinna heimkynna og til sinna eigna, eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna nr. 194 gerir ráð fyrir.

BDS er inngildandi, and-rasísk mannréttindahreyfing sem hafnar öllum birtingarmyndum mismununar, þeirra á meðal íslamófóbíu og gyðingahatri.

BDS Ísland var stofnað árið 2014.

Sniðganga (e. boycott)
Sniðganga er friðsamleg aðferð sem miðar að því að tjá siðferðislega og pólitíska vanþóknun á viðvarandi aðgerðum einstaklinga, stofnana og ríkja sem skaða aðra.
Sniðganga felur í sér að draga til baka stuðning, siðferðislegan og/eða efnislegan, við þær persónur og stofnanir sem skaða aðra, svo lengi sem viðkomandi reynir að viðhalda núverandi ástandi. Þessi aðferð er yfirleitt notuð þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar og því er sniðganga ekki algengt pólitískt verkfæri.

Sniðganga beinist að framleiðslu og fyrirtækjum, jafnt ísraelskum sem og alþjóðlegum, sem hagnast á landráni, hernámi og stríðsglæpum ísraelskra stjórnvalda. Hver sem er getur tekið þátt í því að sniðganga ísraelska framleiðslu og fyrirtæki með því skoða hvort að varan sé framleidd í Ísrael, af ísraelsku fyrirtæki eða alþjóðlegu fyrirtæki með tengsl við landið. Baráttufólk fyrir sniðgöngu hvetur einnig fyrirtæki til þess að kaupa hvorki inn né selja slíka framleiðslu.

Sniðgangan beinist einnig að ísraelskum íþrótta-, menningar- og akademískum stofnunum. Hver sem er getur tekið þátt í því að sniðganga ísraelskar vörur með því skoða hvort að varan sé framleidd í Ísrael eða af ísraelsku fyrirtæki. Baráttufólk fyrir sniðgöngu hvetur einnig neytendur til að sniðganga ísraelskar vörur og fyrirtæki til að kaupa þær ekki inn né selja. 

Sniðgangan beinist einnig gegn ísraelskum íþrótta-, menningar- og akademískum stofnunum en slíkar stofnanir taka beinan þátt í að viðhalda, verja og hvítþvo kúgun ísraelskra stjórnvalda á palestínsku þjóðinni. Í gegnum listir, menningu og menntun, sem og íþróttir, reyna ísraelsk stjórnvöld gagngert að fegra ímynd sín á alþjóðavettvangi á meðan brotið er á mannréttindum palestínsku þjóðarinnar á bak við tjöldin.

Þá er þekkt að ademískar stofnanir í Ísrael eru virkir þátttakendur í nýlendustefnu, landráni, þjóðernishreinsunum og aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis. Þær taka meðal annars þátt í þróun vopna og tækni í hernaðarlegum tilgangi sem og þróun á hernaðaraðgerðum og -aðferðum. Þar að auki taka akademískar stofnanir þátt í hvítþvotti og réttlætingu á stríðsglæpum stjórnvalda, kúgun á gagnrýnendum Ísraelsríkis, skerðingu á tjáningarfrelsi nemenda og kerfisbundinni mismunun í garð nemenda af palestínskum uppruna.

Fjárlosun (e. divestment)
Hvatningin um fjárlosun felur í sér áskorun til fyrirtækja, fjárfestingarsjóða og annarra aðila sem hafa fjárfest í Ísrael, í ísraelskum og/eða alþjóðlegum fyrirtækjum og/eða fjárfestingasjóðum sem styðja við og hagnast á stríðsglæpum Ísraelsríkis að draga fjárfestingar sínar til baka.

Einnig eru fyrirtæki hvött til þess að nota alþjóðleg áhrif sín til þess að þrýsta á stjórnvöld Ísrael að viðurkenna réttindi Palestínumanna.  Allar fjárfestingar og öll viðskipti hafa áhrif á hagkerfi hvers lands fyrir sig, sama hversu miklar fjárhæðir er um að ræða.

Þvinganir og refsiaðgerðir (e. sanctions):
Þvingunaraðgerðir eru grundvallaratriði í aðgerðum ríkis til þess að tjá vanþóknun sína á gjörðum annars ríkis.

Hvers konar diplómatísk samstarf við ísraelsk stjórnvöld sendir þau skilaboð til Ísraelsríkis að nýlendustefna þeirra og þjóðernishreinsanir séu ásættanlegar. Að sama skapi er samvinna í alþjóðlegum viðskiptum við Ísrael fjárhagslegur stuðningur við landrán þeirra, hernám og stríðsglæpi.

Hvatning til stjórnvalda um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og setja á viðskiptaþvinganir gegn ríkinu er hvatning til þeirra um að standa undir lagalegum og siðferðilegum skyldum sínum til þess að beita sér gegn hernámi, landtöku og aðskilnaðarstefnu og gerast ekki samsek í glæpum nýlenduveldis.

WordPress Appliance - Powered by TurnKey Linux