SodaStream er ísraelskt vörumerki sem árið 2018 var keypt af alþjóðasamsteypunni PepsiCo. Ísraelska fyrirtækið SodaStream hefur hagnast á landráni og aðskilnaðarstefnu Ísraelsmanna um árabil, en fyrirtækið var með verksmiðjur í Mishor Edomim landræningjabyggðinni sem Ísraelar byggðu á landsvæði Palestínumanna á Vesturbakkanum. Þannig hefur fyrirtækið notið ákveðinna forréttinda á kostnað Palestínufólks.
Vatn er ein mikilvægasta auðlindin á svæðinu en er því miður af skornum skammti. Ísraelar hafa ólöglega gert eignanám á vatnsauðlindum á hernumdu svæðum Palestínu og því þarf margt Palestínufólk að treysta á vatn sem þeim er skammtað á meðan Ísraelar njóta þess óspart. SodaStream notar vatn sem stolið hefur verið af palestínsku þjóðinni.
Þá hefur eyðilegging Ísraela á efnahag Palestínu valdið því að margt Palestínufólk er tilneytt til þess að vinna í verksmiðjum Ísraela á Vesturbakkanum. Þá njóta fyrirtæki líkt og SodaStream forréttinda í formi skattaafslátta og annarra fríðinda sem væru ekki til staðar ef það væri ekki starfandi í landsræningjabyggð. Þess vegna eru yfirvöld í Ísrael beinlínis að ýta undir og hvetja til flutnings þegna og fyrirtækja á ólöglega hernumin svæði.
SodaStream er ennþá virkur þátttakandi í aðskilnaðarstefnu Ísraels en ný verksmiðja fyrirtækisins i Nagev hefur valdið því að palestínski bedúínar (hirðingjar) eru fluttir nauðungaflutningum gegn vilja sínum af umræddu svæði. Þessar aðgerðir nýtast SodaStream beint sem gerir fyrirtækið meðsekt í þessum mannréttindabrotum. Allmargir birgjar hafa hætt sölu á SodaStream síðan að BDS-hreyfingin hóf að þrýsta á um sniðgöngu.